Jón Ásgeir Jóhannesson sakar lögreglumanninn Grím Grímsson um óheiðarleika í tengslum við starf hans sem rannsakanda í hinu svokallaða Aurum-máli þar sem Jón Ásgeir er einn hinna ákærðu. Málið bíður meðferðar í Hæstarétti en Jón Ásgeir hefur í tvígang verið sýknaður fyrir Héraðsdómi Reykjavikur.

Sjá einnig: https://www.jonasgeirjohannesson.is/jon-asgeir-oheidarleiki-haesta-stigi/

Jón Ásgeir segir Grím hafa sýnt af sér óheiðarleika á hæsta stigi með því að halda undan gögnum sem bentu til sakleysis hinna ákærðu.

Sjá einnig: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/05/30/jon_asgeir_svarar_grimi_grimssyni/

Sjá einnig: https://kjarninn.is/frettir/2017-05-30-jon-asgeir-segir-grim-hafa-synt-af-ser-oheidarleika-haesta-stigi/

Sjá einnig: http://www.dv.is/frettir/2017/5/30/jon-asgeir-hjolar-i-grim-oheidarleiki-haesta-stigi/

Við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi þann 8. apríl 2014 fór fram skýrslutaka yfir Grími og eru framburður Gríms í heilu lagi hér fyrir neðan. Fyrir þá sem vilja frekar lesa framburð Gríms í pdf-skjali má nálgast það hér fyrir neðan:

Framburður Gríms Grímssonar 8. apríl 2014

Framburður Gríms Grímssonar 8. apríl 2014

Kl. 14.52 mætir fyrir dóminn sem vitni, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.

Vitnið veit tilefnið og eru kynntar reglur um vitnaskyldu og vitnaábyrgð.

Vitnisburður vitnisins er hljóðritaður.

D:  Gestur gjörðu svo vel.

GJ:  Já sæll Grímur, Gestur Jónsson heiti ég, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í þessu máli. Í upphafi gætir þú gert okkur grein fyrir hver þín staða hefur verið eða var við rannsóknina á Aurum sem hér er fyrir dómstólnum?  V:  Já ég er yfirlögregluþjónn hjá embætti sérstaks saksóknara og stýrði rannsókninni ásamt kollega mínum, Sveini Ingiberg.

GJ:  Í þessu máli?  V:  Í þessu máli.

GJ:  Skipulagið að öðru leyti, hvernig er rannsóknarteymið sett upp? þið eruð stjórnendur rannsóknarinnar?  V:  Já við erum stjórnendur rannsóknarinnar og síðan er myndaður hópur um rannsóknina og það voru nú að koma að þessari rannsókn sennilega einir 6 rannsakendur og unnu þá að rannsókninni undir okkar stjórn.

GJ:  Ákvarðanataka um til dæmis það hvað hver gögn eru að gerð að skjölum í málinu og annað slíkt, er það í ykkar höndum eða er það í höndum annarra?  V:  Það er sameiginleg ákvörðun.

GJ:  Ykkar og?  V:  Já við hittum þennan hóp reglulega, vikulega og förum yfir það hvernig framgangur rannsóknarinnar er og hvaða gagna hefur verið aflað og hvaða gagna er þá eðlilegt að gera að gögnum málsins, rannsóknargögnum eða eftir atvikum ekki.

GJ:  Eru þá ákærendur einhverjir í þessum hópi eða?  V:  Já það eru saksóknari yfirleitt sem að fylgir þessum rannsóknarhópi.

GJ:  Var einhver tilgreindur eða var það ýmist hver hann væri í þessu tiltekna máli?  V:  Já það er reyndar, var inni í þessum rannsóknarhópi reyndar löglærðir eintaklingar en það var ekki ákveðið hver er ákærandi í málinu fyrr en við lok rannsóknarinnar en ég hygg að Hólmsteinn Gauti Sigurðsson hafi fylgst nokkuð með framgangi rannsóknarinnar.

GJ:   Spurningarnar sem ég ætla að spyrja þig tengjast því að ég tel að það hafi komið upp við rekstur þessa máls að þetta er rannsakað sem sakamál, meðal annars af þeirri ástæðu að rannsakendur hafa efast um það að umsamið verðmæti í svokölluðu heads of terms upp á 100 milljónir punda og þú þekkir það skjal sem var undirritað 14. júní 2008.  V:  Já.

GJ:  Að það hafa verið efasemdir um það að það endurspeglaði líklegt markaðsverð Aurum á þeim tíma sem það var undirritað og væri sem slíkt hæft til viðmiðunar fyrir stjórnendur Glitnis þegar þeir tóku ákvörðun um lánveitinguna sem ákært er fyrir. Ég veit að þú þekkir þetta, er það ekki?  V:  uhum.

GJ:  Fyrsta spurningin er þá, var rannsakað hvort það væru til útreikningar á ætluðu eiginfjárvirði Aurum frá þessum tíma?  V:  Já það er rétt að það komi fram að auðvitað er þessi tala í þessu skjali til rannsóknar sérstaklega og það er kannað bæði með því að yfirheyra í málinu, það eru yfirheyrðir í þessu nokkuð margir einstaklingar og sérstaklega man ég eftir allavega tveimur sem voru yfirheyrðir um það, um aðkomu sína að málinu og hvort þeir hafi gert verðmat í málinu.

GJ:  Manstu hverjir það voru?  V:  Það er annars vegar starfsmaður innan Glitnis og starfsmenn innan Glitnis voru yfirheyrðir um þetta, það er Einar Sigurðsson og Einar Örn Ólafsson og Daði, ég man ekki eftirnafnið.

GJ:  Ég ætla að fara þá fyrst út í.  V:   Fyrirgefðu af því að ég kláraði ekki svarið, þá var það líka í Kaupþingi var yfirheyrður líka maður Þórólfur sem að var framkvæmdarstjóri hjá fyrirtækjaráðgjöf þess banka.

GJ:  Ég ætla fyrst að víkja að því sem hefur verið kallað damas matið, það liggja fyrir gögn í málinu sem sýna að embætti sérstaks saksóknara það hefur fengið í hendur gögn frá damas sem sýna að það var gerð áreiðanleikakönnun sem var bæði fjárhagsleg og lögfræðileg í tengslum við þessi fyrirhuguðu kaup á 30% hlut í Aurum og þessi áreiðanleikakönnun eða gögnin bera það með sér að þetta hefur verið gert á tímabilinu frá því að þetta terms var undirritað og fram í byrjun september 2008.  Ég ætla að sýna 6.083, Grímur nú þekkir nú þetta sjálfsagt allt saman, það kemur fyrir framan þig skjalið sem ég er að vísa til að blaðsíðutal þess og þetta er póstur þarna á blaðsíðu 6.803 sem er stílaður á Baldvin Inga Sigurðsson, manstu eftir þessum pósti?  V:  Þetta er póstur já þessi neðri póstur hérna frá þessum já.

GJ:  Manstu eftir þessum pósti?  V:  Nei ekki sérstaklega en ég kannast alveg við efnið eða hvað kom frá þeim þarna.

GJ:  Með þessum pósti virðist hafa fylgt, ef þið farið yfir á blaðsíðu 6.149 og 6.150, það er íslensk þýðing á því sem er kallað fjárfestingasnið og ef við förum yfir á blaðsíðu næstu á eftir, að þá koma fram í þessu skjali það sem þýtt er og það er á 6.150 á 9 línu „heildarvirði félagsins 181 milljón punda rúmar“ og eiginfjárvirði 5 línum neðar, 107 milljónir punda, manstu eftir að hafa séð þessar tölur eða þessa útreikninga?  V:  Nei ég man það ekki sérstaklega en ég man alveg eftir umræðunni um þessi gögn.

GJ:  Já, getur þú sagt okkur frá því …   V:  Gögnin sem koma frá damas þarna, ég man ekki nákvæmlega hvenær þau komu en þau.

GJ:  Það virðist vera 12. maí 2011.  V:  Já það er þá í aðdragandanum að því að við fórum og hittum þessa menn þarna úti í Dubai og þá senda þeir gögnin og það lá fyrir að þeir höfðu fengið tvenns konar gögn unnin fyrir sig, damas það er, annars vegar frá Ernst & Young og hinsvegar frá, ég man bara cirka annað nafnið Lebuf, eitthvað svoleiðis.

GJ:  Þetta kemur fram í gögnum málsins.  V:  Já þetta voru tvenn gögn sem við fengum og notuðum við undirbúninginn þegar við fórum og hittum þessa menn í Dubai.

GJ:  Veist þú hver er ástæða þess að þessi gögn voru ekki gerð að skjölum málsins við rannsóknina og síðar lá frammi í þingfestingu málsins?  V:  Ja ástæðan er sú að það er verið að horfa í það að gagnamagn verði ekki um of og það væri ekki í þessum gögnum upplýsingar sem kæmu ekki fram annarsstaðar.

GJ:  Ertu þá að vísa til upplýsinganna um útreikning á virði Aurum?  V:  Ja meðal annars já.

GJ:  Hvar annarsstaðar … V:  Nú get ég ekki margfaldið þau við gengi en 106 milljón pund er þetta þar.

GJ:  … við berum saman við töluna í head of terms.  V:  Já sem er 100.

GJ:  Ég var að spyrja sem sagt um það að og þú svaraði ef ég skildi það rétt að þessar tölur hefði mátt sjá annarsstaðar í gögnum málsins.  V:  Já.

GJ:  Tókst þú þá ákvörðun að þetta yrði ekki gert að skjölum málsins?  V:  Nei ekki sérstaklega, þetta er sameiginleg ákvörðun í þessum rannsóknarhópi sem stýrir rannsókninni.

GJ:  …  V:  Já, hafi það yfirleitt komið til umræðu, ég bara virkilega bara man það ekki en mér finnst það samt sem áður líklegt vegna þess að þarna er gagn sem kemur frá mönnum sem á að fara að tala við og það sé lagt mat á það að þetta séu ekki gögn sem þurfi að gera að gögnum málsins og það liggur fyrir að núna er þetta til hér þýtt en á þessum tíma er þetta á ensku og það hefði þá þurft  að fara í það að þýða gögnin ef það hefði átt að gera þau að gögnum málsins og einhverskonar sameiginleg eða það er að segja að það væri þá eitthvað court benfit af því að gera þetta að gögnum málsins, það væri kannski dýrara en svo að það hefði þá bætt einhverju við.

GJ:  En mátti það nú ekki ljóst vera að það skipti sakborninga og verjendur þeirra miklu máli að fá fram gögn sem þessi sem sýndu að útreikningar sérfræðinganna sem damas hafði leitað til og höfðu unnið þessa áreiðanleikakönnun, þeir sýndu hærra eiginfjárvirði heldur en við var miðað í rammasamkomulaginu þarna head of terms og kannski þá sérstaklega borið saman við þitt svar Grímur um það að þið hefðuð talið þetta nauðsynleg gögn til þess að geta undirbúið upplýsingagjöfina eða upplýsingafundinn með fulltrúum Damas sem var í Dubai?  V:  Ég held að ég hafi nú ekki orðað það þannig að þetta væru nauðsynleg gögn heldur hafi þetta verið þannig að við fengum send þessi gögn frá þeim og við notuðum þau til undirbúnings en ef ég horfi til þess hvað hefur komið fram í yfirheyrslum og kom fram í yfirheyrslunum líka á þessum fundum með þessum mönnum í Dubai þá er það þannig að gögnin sem þetta er unnið á stafa meira og minna frá Aurum og það gerðu líka þessi gögn sem voru í head of terms. Þannig að uppruninn er sá sami, þannig að þá er kannski ekki óeðlilegt að niðurstaðan sé svipuð.

GJ:  Eru þetta ekki gögn um áreiðanleikakönnun, einmitt þeirra upplýsingar sem seljandinn hefur gefið og hefur skrifað undir í head of terms þannig að áreiðanleikakönnun hefur þann sjálfstæða tilgang að staðreyna forsendur.  V:  Já, já.

GJ:  Við getum væntanlega verið sammála um það?  V:  Já, já.

GJ:  Það er tilgangurinn? V:  Það er tilgangurinn.

GJ:  Og hefur það þá ekki sjálfstæðan tilgang að leggja það inn í málið upplýsingar af þessu tagi, sérstaklega þegar að ákæran er síðan byggð á því að það kunni að vera vafi um það að menn hafi verið í góðri trú um að þetta væri rétt virði félagsins?  V:  Jú það má vel vera að það megi komast að þeirri niðurstöðu en það er líka þannig að undir rannsókn málsins að þá var ákveðið að gera einhver ákveðin gögn að gögnum málsins eða rannsóknum og gögnum og síðan er það ákærandinn sem ákveður það í framhaldinu hvort það séu þá einhver frekari gögn sem eru gerð að gögnum málsins. Ef ég man rétt þá vildi hann leggja þessi gögn fram.

GJ:  Ja það gerðist, við komum kannski að því á eftir. 6.084 þetta er tölvupóstur sem er sendur af Ólafi Haukssyni sérstökum saksóknara til Óttars Pálssonar í október 2013 þegar þessi gögn eru komin inn í málið og Óttar er að spyrja af hverju þessi gögn hafi ekki verið inni í málinu og það er svarað „mér skilst á rannsakendum að Baldvin Ingi hafi í símtali beðið … um þessi gögn ef hann ætti þau hjá sér enda bárust þau í tal í sama símtali. Ekki var send formlega beiðni enda spurning um það í huga rannsakenda hvaða þýðingu gögn um áreiðanleikakönnun hefði í málinu þar sem hún lá ekki fyrir fyrr en eftir að lánið var veitt af hálfu bankans“ hafðir þú séð þetta svar áður?  V:  Nei.

GJ:  Hefur þú afstöðu til þess hvort þetta er rétt? er það þannig að rannsakendur, er verið að lýsa þinni afstöðu þegar sagt er að matið á hlutafjárvirði Aurum sem til varð í áreiðanleikakönnunni hefði ekki þýðingu þegar leitað væri svars við spurningunni um það hvort að head of terms væri skjal sem væri raunverulega hæft til viðmiðunar um verðið?  V:  Mér sýnist þetta vera svolítið … við það sem ég hef sagt áður.

GJ:  Þannig að þú ert þá sammála þessari skýringu?  V:  Já.

GJ:  Veistu hvaða rannsakendur sérstakur er að vísa til þegar hann segir þetta í póstinum að það hafi verið spurning í huga rannsakanda um hvaða þýðingu gögnin hefðu? eru þetta upplýsingar sem hann hefur frá þér?  V:  Nei mér sýnist hann nú vísa til þess að hann hafi talað við Baldvin Inga um málið og ég reikna með að hann sé að vísa til hans. Undir lok rannsóknarinnar þá var Baldvin Ingi með þetta mál og Ólafur Hallgrímsson auk þess sem að Fjölnir Sæmundsson og síðan ég komum að því nokkuð nákvæmlega.

GJ:  Það er í sambandi við þessi ..  V:  Já.

GJ:  Áttir þú einhvern hlut að máli við skrif á greinargerð rannsakanda í málinu?  V:  Nei.

GJ:  Ég vil nú taka fram að þú undirritar hana ekki, það er Ólafur Hallgrímsson sem hér situr sem undirritar hana en hann undirritar hana fyrir hönd rannsakanda og spurningin er sú, áttir þú einhvern hlut að máli varðandi skrif þessarar?  V:  Nei.

GJ:  Ég ætla nú engu að síður að bera undir þig, þótt þú hafir ekki samið hana en á blaðsíðu 5.998 er texti sem byrjar á orðunum „Í greinargerð Jóns Ásgeirs er því haldið fram að Damas hafi verðmetið Aurum og er þar farið út í hvernig sjálft verðmatið var framkvæmt. Við yfirheyrslur yfir þeim sem samþykktu og unnu að málinu var engum kunnugt um þetta verðmat sem Jón Ásgeir heldur fram að hafi verið framkvæmt“ hafðir þú séð þessi orð áður?  V:  Já, já ég hef lesið greinargerðinar.

GJ:  Gat nokkur vafi leikið á því að í sinni greinargerð hafi Jón Ásgeir verið að vísa til þess að Damas hafi látið gera áreiðanleikakönnunina sem er sama skjalið og þið höfðuð undir höndum? er nokkur minnsti vafi á því að hann á við það?  V:  Ég skal ekki fullyrða um það hvort það er vafi en það blasir við að það gæti verið að vísa til þess skjals.

GJ:  Þetta er þá um þessa áreiðanleikakönnun og nei þessa Damas matið. Ég ætlaði þá að koma að öðru máli, ekki Damas matinu heldur mati sem ég þykist nú vita Grímur að þú hafir heyrt um í gegnum fréttir sem hafi komið frá Kaupþing og ég vil spyrja þig fyrst, vissir þú að Kaupþing hafði útibú í Dubai og það var fyrir milligöngu starfsmanns Kaupþings þar sem að Damas leitaði til Gunnars Sigurðssonar út af þessum áhuga á því að koma að Aurum? Þetta er Þórólfur Jónsson sem ég er að vísa til sem er starfsmaðurinn og.  V:  Já var það ekki þannig að ég hef kynnt mér skýrslurnar sérstaklega og ef ég man þetta rétt eftir framburðum að þá hafi Þórólfur frétt af áhuga Damas af Aurum og snúið sér til Baugs, til Gunnars?

GJ:  Já. Ég skildi það þannig að þegar hann er í starfinu í þessari fyrirtækjaráðgjöf þarna úti í Dubai eða þetta kemur þar í gegn, upplýsingar um að það sé áhugi hjá þarlendu félagi á því að eiga samstarf við Aurum á forsendum sem vörðuðu eitthvað breska skartgripamarkaðinn og allt það og hann kemur því til skila og það er upphafið að þessum samskiptum sem er verið að ræða?  V:  Já.

GJ:  Var óskað eftir gögnum við rannsóknina frá starfsmönnum Kaupþings um aðkomu þeirra að viðræðunum um kaup Damas á hlutnum í Aurum?  V:  Nei ég man ekki eftir því að það hafi verið gert en hinsvegar þá er ég búinn að kynna mér skýrsluna sérstaklega yfir Þórólfi og mér finnst hann nokkuð afgerandi um það að það hafi ekki verið gert verðmat í Kaupþingi og svo að ég skýri það að skýringin á því að það sé ekki leitað eftir gögnum í Kaupþingi að það sé þá skýrt í hans framburði að þau séu þá ekki til.

GJ:  Veist þú núna að Hálfdán Gunnarsson virðismat hlutafé Aurum á 121 milljón punda í byrjun apríl 2008, veistu það núna?  V:  Ég veit að það verðmat liggur fyrir eða drög held ég að það sé merkt en ég vissi ekki hver hafði gert það.

GJ:  Hefði það skipt einhverju máli fyrir framgang rannsóknarinnar, hefði þetta verðmat legið fyrir við rannsóknina?  V:  Mér finnst erfitt að taka afstöðu til þess.

GJ:  Nú það gerðist hér í gær að Þórólfur Jónsson sem að er eins og þú réttilega lýstir fyrrverandi starsmaður fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, hann lagði fram gögn sem hann hafði fengið aðgang að hjá slitastjórn Kaupþings og þrotabúi Baugs sem að sýndu að þetta verðmat, það hafði verið gert í apríl 2008 og þessi gögn rifjuðu upp fyrir Þórólfi meðal annars það að hann hefði farið sérstaka ferð til Lester og hitt þar stjórnendur Goldsmith sem er eins og þú veist er sama og Aurum, við undirbúninginn á þessu verðmati. Hann tók það fram að við skýrslugjöfina hjá Sérstökum saksaksóknara þá hefði hann ekki munað eftir þessu verðmati og í rauninni ekki einu sinni munað eftir þessari ferð til Lester.  V:  Ég held að það sé ekki alveg rétt vegna þess að hann segir, hann nefnir að vísu ekki Lester en hann segist hafa farið til einhvers bæjar utan við London þar sem hafi verið höfuðstöðvar Aurum eða hann nefnir reyndar ekki Aurum en ég skildi það þannig í yfirheyrslunni að það væri verið að vísa til þess að það væru höfuðstöðvar Aurum og þar hefði verið unnið að uppsetningu gagnaherbergis og þar hefði hann hitt fjármálastjóra félagsins. Það kemur fram í yfirheyrslunni.

GJ:  Það má vera að það sé rétt. En ég ætla að sýna þér á blaðsíðu 4.486, þetta er úr skýrslutökunni hans, þarna er verið að spyrja um dagsetningu, hvaða dag og það er sagt já og þarna segir Þórólfur „nei, það var þarna sumarið 2008 man ég, þetta væri hægt að finna út úr því auðveldlega bara með dagbók eða tölvupóstum“ og svo kemur eitthvað þarna áfram en síðan er líka á blaðsíðu 4.491 þar segir hann „það er ekki hægt að útiloka að við höfum séð þetta og ég …input í þetta, mér finnst ekkert útiloka það en það má sannreyna það örugglega mjög auðveldlega“ en þá er sagt „hvernig þá?“ „ja bara með tölvupóstum og eitthvað þvíumlíkt“ það kann að vera að í skýrslutökunni séu fleiri sambærileg svör, ég ætla ekki að fullyrða um það en spurningin verður þessi …  V:  Er ekki hér verið að tala um head of terms? Á þessum stað í skýrslunni?

GJ:  Það má vera að það sé verið að tala um það en spurningin er bara þessi, vissu rannsakendur á þessum tíma að Þórólfur Jónsson hafði engan aðgang haft að sínum eigin vinnugögnum frá þessum tíma þegar hann var stafandi hjá Kaupþingi, þar sem þau voru í vörslu slitastjórnarinnar?  V:  Já ég tel að það hafi alveg legið fyrir að hann hafi jafnvel sagt það nokkuð skýrt að hann hafi ekki aðgang að þessum gögnum þar sem hann væri hættur störfum hjá bankanum og tekinn við öðru starfi.

GJ:  Kom ekki til álita að fylgja spurningum til Þórólfs Jónssonar sem hann gat ekki svarað með vissu, eftir með þeim hætti að tryggja honum aðgang að eigin vinnugögnum þannig að hann gæti sjálfur upplýst með öryggi um það sem hann vissi eða gat vitað?  V:  Nei ég get sagt það að það hafi ekki komið til álita á þessum tíma.

GJ:  Getur þú sagt af hverju það kom ekki til álita?  V:  Það er ekki tekin ákvörðun um að gera það ekki skilurðu, það er bara þannig að það kemur ekki til álita að það sé þörf á því.

GJ:  Nú liggur það fyrir að hann kemur sem vitni í málinu og það er væntanlega vegna þess að það eru væntingar um að hann hafi vitneskju um atriði sem skipta máli varðandi rannsóknina og nú svarar vitnið þannig að hann telji að það séu til svör við spurningunum sem lagðar eru fyrir hann með því að fara í vinnugögn sem hann sjálfur hefur ekki aðgang að. Er það ekki sjálfstætt tilefni til þess að tryggja það að vitnið geti farið í gögnin eða þá rannsóknaraðilinn sjálfur?  V:  Mér finnst það skipta máli um hvað er verið að tala hér. Ef ég man rétt þá er hér verið að tala um head of terms og það var ekki nein þörf á því að afla þess, við vorum með það. Þannig að það er verið að tala hér að hann sé að hugsa um það hvenær hann hafi fengið það og það hafi ekki verið talið stóra málið í þessum tímapunkti hvenær hann hafi fengið head of terms.

GJ:  Það sem er nú á bakvið þetta þegar upp er staðið er það að maðurinn býr yfir grundvallarupplýsingum fyrir málið sem er það að þeir hafa átt þátt í því að semja skjölin sem eru grundvöllur söluhugmyndanna á Aurum … og var rannsakendum ekki fyllilegt ljóst að ….  V:  Liggur það fyrir núna?

GJ:  Ja fullyrðingin er mín en að því marki, ég tek alveg athugasemdir við það að menn kunni að hafa aðra skoðun. Ég held nú samt að það hljóti að skipta verulega máli að í upphafi eða áður en samningaviðræður hófust við þann kaupanda sem hafði lýst sig fúsan að þá hafði milligönguaðilinn framkvæmt slíkt verðmat. Ég ímynda mér það við séum ekki ósammála um það að það skipti verulegu máli.  V:  Nei enda er hann spurður um það ítrekað, um það hvort það hafi verið gert verðmat og hann man ekki til þess að það hafi verið gert, hann eiginlega fullyrðir að það hafi ekki verið gert.

GJ:  Nú veit ég að það eru fáir reyndari í þessum efnum en þú Grímur. Er það ekki löngu ljóst að minni manna um atvik sem hafa gerst árum fyrr er með þeim hætti að það er ómögulegt að vonast til þess að þeir muni raunveruleg atvik nema það styðjist við gögn?  V:  Jú við erum sammála um það.

GJ:  Þá er þriðja atriðið sem ég ætla að víkja að sem er það sem hefur verið kallað útreikningur Glitnis og Aurum kynningin, það er atriði sem þú vékst að í inngangi að þú hefðir rætt við Einar Sigurðsson eða tekið skýrslu af honum varðandi virðismat og Einar Örn Ólafsson ef ég skil rétt.  V:  Það voru teknar skýrslur af þeim já.

GJ:  Manst þú það Grímur hvort að það kom fram við rannsókn málsins að 20. febrúar 2008 þá kynntu nýjir stjórnendur Aurum lánadrottnum félagsins, það er að segja eigendum þess sem kallað var sambankalánið, þú þekkir það, að þeir kynntu þessum aðilum nýja 5 ára rekstraráætlun félagsins og gerðu grein fyrir sínum hugmyndum um hvernig þeim markmiðum yrði náð. Vissir þú af þessari?  V:  Já.

GJ:  Í gögnum málsins á blaðsíðu 1.772 þar er lýsing á þessu en ég ætla að fara á blaðsíðu 1153, þar er þýðing sem ég sá í gær að var til en það segir nú hvað maður þekkir nú lítið að ég var í gær að spyrja menn út í ensku útgáfuna, ég hafði ekki séð sjálfur íslensku útgáfuna af þessu. Manst þú eftir því að hafa séð þetta skjal sem þarna er?  V:  Nei ekki sérstaklega.

GJ:  Það er bókað í þessu skjali að Goldsmith hélt fund þann 20. febrúar þar sem framkvæmdarstjóri, fjármálastjóri og stjórnarformaður Goldsmith voru viðstaddir ásamt aðilum sambankalánsins og síðan eru þeir taldir. Á fundinum kynnti stjórnin og fór yfir 5 ára viðskiptaáætlun, viðskiptaáætlunin var frekar hógvær og á auðveldlega að vera hægt að uppfylla. Síðan heldur þessi texti áfram. Var þér kunnugt um við rannsókn málsins eða rannsakendum kunnugt um það, þetta mat Glitnis á hæfni stjórnenda Aurum, viðskiptaáætlun sem hefði kynnt og þetta mat á því að þetta væri hógvær áætlun og það ætti að vera hægt að ná þeim markmiðum sem þar væri lýst?  V:  Ég held að þetta skjal eða enska skjalið hafi örugglega legið fyrir í málinu.

GJ:  Kom fram við rannsókn málsins að Glitni hafi verið send sérstök kynning sem er dagsett 17. maí 2008 um samningaviðræður Aurum við Damask?  Þessi kynning, hún er á dómskjali 81. Spurningin er sú hvort þú munir eftir því að þetta skjal hafi komið fram við rannsóknina? Það liggur fyrir samkvæmt framburði vitna hér að þetta skjal hafi verið sent til Glitnis þarna í maí og það liggur fyrir framburður hans Daða Hannessonar um að hann hafi haft meðal annars þetta skjal undir höndum þegar hann reiknaði út virðismat á Aurum.  V:  Ég man ekki eftir að hafa séð þetta skjal en mér finnst þetta samt sem áður kunnuglegt þegar ég fletti í gegnum þetta, þær upplýsingar sem hérna koma fram.

GJ:  Ertu þá að tala um upplýsingar um rekstur og?  V:  Það er til dæmis bara hérna þar sem kemur fram hvaða undirverslanir eru undir Goldsmith, Macin og Web og einhverjir fleiri, Mike Dimonds og síðan er hérna á blaðsíðu 7 er svona rit, það stendur Aurum legal strukture.

GJ:  Það er rekstraráætlun þarna aftast, spurningin er raunverulega sú hvort þú munir eftir að þetta gagn hafi komið upp við rannsóknina og í framhaldi af því er spurningin sú hvort að þú munir hvort það hafi verið tekin ákvörðun um það að þessi kynning yrði ekki gerð að gögnum málsins. Þetta er ekki í gögnum málsins.  V:  Þetta er ekki í gögnum málsins.

GJ:  Nei þetta er lagt fram sérstaklega.  V:  Það er kannski ekki mitt að spyrja en upplýsingarnar í þessu, það er þá spurning um hvort þær séu í öðrum gögnum málsins sambærilegar upplýsingar.

GJ:  Þetta er sérstök kynning sem varðar fyrirhugaðar viðræður við Damask. Baugur er að kynna Glitni, muni ég þetta rétt, þær forsendur sem þær viðræður eiga að byggjast á.  V:  Ég er að svara spurningunni þannig að ég man ekki eftir því sérstaklega neinni umræðu um það að þetta yrði gert að gögnum málsins eða ekki.

GJ:  En manstu nokkuð eftir að hafa séð þetta?  V:  Nei ég man ekki eftir því.

GJ:  Nú varðandi blaðsíðu 1.534, þetta er tölvupóstur sem að stafar frá Einari Sigurðssyni og er stílaður á Einar Örn Ólafsson, það er þarna í 3 efnisgreininni er fjallað um undir fyrirsögninni Aurum\FonS: sérðu þann texta?  V:  Já.

GJ:  Þar er sagt „er byrjaður með þetta, Daði mun klára að verðmeta“ manstu eftir að hafa séð þetta skjal?  V:  Já ég man eftir þessari umræðu í það minnsta, þetta er nú ástæðan fyrir því að Daði var yfir málinu.

GJ:  Svo er skjal sem er á blaðsíðu 1.757, það er dagsett 18. maí, ég vek athygli á því að þetta eru sömu dagarnir nánast eins og kynningin var dagsett líka 17. og í þessum pósti er ég að vísa til upphafsins á textanum þar sem sagt er „Aurum er Goldsmith, sjáðu hér að neðan, þarf að fá eitthvað EI með þegar Daði er búinn með sinn hluti, ég vildi láta Daða verðmeta fyrst, ef verðið sem PH vill fá er langt frá því sem okkur finnst eðilegt“ manstu eftir að hafa séð þennan póst áður?  V:  Nei.

GJ:  Þetta er meðal gagna málsins, á blaðsíðu 1.757.  V:  Ég held að ég hafi örugglega vísað í þennan póst í yfirheyrslu yfir Einar, getur það ekki verið?

GJ:  Það getur vel verið.  V:  EI hvað er það?

GJ:  Equity invest.  Svo er tölvupóstur sem er dagsettur 26. maí á blaðsíðu 1.762, þetta er tölvupóstur frá Daða Hannessyni til Einars Sigurðssonar og þar er sagt að ef maður kaupir allar forsendur þá er verðmatið í kringum 190 til 200 á að vera milljónir punda væntanlega, manstu eftir þessum pósti?  V:  Ég man eftir efninu.

GJ:  Var kannað hjá Daða Hannessyni hvernig hann gat leitt fram þessar tölur, að verðmætið væri 190 til 200 milljónir punda?  V:  Hann er töluvert mikið spurður um það og hann, eins og ég man þetta og er það ekki orðrétt haft eftir honum að þá segir hann að þetta hafi bara komið á einhverjum 5 mínútum.

GJ:  Hann reyndar lýsti því hér fyrir dómi í gær að hann hefði tekið nokkra daga að vinna þetta verðmat og hann hefði verið nokkrar klukkustundir að reikna út útreikningana, það eru 8 dagar reyndar á milli póstsins 18. þegar hann er beðinn um þetta og þegar hann skilar þessu en liggur það nú nánast ekki í hlutarins eðli að það er ekki hægt að leiða fram tölu eins og þessa án þess að það séu einhverjir útreikningar á bakvið það?  V:  Hann er spurður um þetta í yfirheyrslunni og þá er ég að vísa til yfirheyrslu hjá lögreglu.

GJ:  Já ég geri mér grein fyrir því.  V:  Þá er hann spurður um þetta og þetta voru svona svörin, hann neitar því að hafa verið með verðmat, að hafa unnið verðmat.

GJ:  Já ég hefði nú ekki túlkað það þannig en okey látum það liggja.  Gaf þetta ekki lögreglu tilefni til þess að spyrja beint hvort það væru til útreikningar á bakvið þessa tölu 190 til 200 milljónir punda?  V:  Ég held að það hafi verið spurt um það og það hafi verið sama svar, að það væri ekki til neitt annað en þetta.

GJ:  Það kom fram hjá honum líka að það hefði ekki bara verið útunnið eitt mat, það hefði líka verið annað mat unnið sem að var upp á 110 milljónir punda þar sem hefði verið gerðar svona varúðarniðurfærslur á forsendum um 20%, veistu af þessu?  V:  Ertu að meina svona excel skjal sem svona?

GJ:  Ja ég veit ekki, ég reikna með blýanti en sumir reikna með excel og ég er bara að tala um útreikning og það kemur fram í …  V:  Er það skjal sem er merkt Aurum eða Goldsmith?

GJ:  Ég get ekki svarað því.  V: Bara svo að við séum að tala um sama skjalið, ég er nú bara að hugsa um það.

GJ:  Það er í gögnum málsins eru engir útreikningar á bakvið þessa 190 til 200 umfram það sem kemur í þessum tölvupósti sem þú hefur fyrir framan þig og spurningin er raunverulega sú að er það ekki alveg augljóst að til þess að þessar tölur geti verið leiddar fram, þá er búið að reikna eitthvað út?  V:  Það er allavega búið að slá þetta inn í excel skjal, það sýnist mér nokkuð ljóst.

GJ:  Hefði það þá ekki verið eðlilegt að kalla eftir því excel skjali?  V:  Það má vel vera en ég bara ítreka það að Daði er mikið spurður um það hvort það sé til eitthvað að baki og hann neitar því að það sé til verðmat. Þetta liggur fyrir í yfirheyrslunni og hann neitar því að það sé til verðmat og maður hlýtur að velta fyrir sér, hvað er verðmat? Er ekki verðmat einhver skýrsla þar sem farið er yfir forsendur og menn komast að einhverri niðurstöðu og hann neitar því að slíkt verðmat sé til og sendir síðan þessa töflu í tölvupósti.

GJ:  Segir hann nú ekki beinlínis í póstinum sem er fyrir framan vitnið „ ef maður kaupir allar forsendur þá er verðmatið í kringum 190 til 200 þannig að svarið ber með sér að það er reiknað út frá gefnum forsendum, er það ekki? Það stendur þarna?  V:  Jú.

GJ:  Einar Sigurðsson bar fyrir dómi og ég bið Sérstakan saksóknara að leiðrétta mig ef að hann telur að ég fari rangt með. Ég vil segja rétt það sem ég held að Einar hafi sagt. Að hann hafi fengið að sjá útreikninga frá Daða Hannessyni, kom ekki fram við rannsókn málsins að Einar hefði fengið útreikninga frá Daða?  V:  Nei ég minnist þess ekki.

GJ:  Þú minnist þess ekki.  Ég ætla að bera undir vitnið skjal sem er á blaðsíðu 5.991, þetta er nú raðað eftir stafróðsröð, ég er nú að tala um vitnið Daði Hannesson, þar stendur aftast skýring á hver maðurinn er, „átti að verðmeta“ veistu hver á þessi orð? Hver býr til „átti að verðmeta?“  V:  Nei ég veit ekki hver skrifaði þetta.

GJ:  Þú last þetta ekki yfir eða?  V:  Ég hef nú áreiðanlega séð þennan lista jú, jú.

GJ:  Síðan er neðar Haukur Skúlason, kannast þú við skýrslu Hauks Skúlasonar í málinu?  V:  Nei.

GJ:  Hann kom og gaf skýrslu hjá Sérstökum saksóknara og hans skýrsla er meðal gagna málsins. Þarna stendur „framkvæmdi verðmöt“ er þér kunnugt um hvaða verðmöt Haukur Skúlason framkvæmdi?  V:  Nei ég er bara ekki með það.

GJ:  Hann segir reyndar sjálfur fyrir dómi að hann hafi ekki haft fyrir framan sig eða ekki þekkt þessar rekstraráætlanir á Aurum eða matið á stjórnendum eða slíkt en þú veist ekki til hvers er verið að vísa?  V:  Nei.

GJ:  Í ákærunni á blaðsíðu 11, þarna er sagt í textanum „hjá Glitni lágu fyrir ýmsar upplýsingar um verðmæti 25,7% hluta Gaums í Aurum að væri á bilinu 1,4 til 2,1 milljaður króna en verðmat hlutafjárins í bókhaldi Fons og Baugs Group var á því bili“ þarna er ekkert vikið að því að vísbendingar hafi legið fyrir hjá bankanum um neitt annað verðmat heldur en þarna er tilgreint. Telur þú að niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið sú að engar vísbendingar hafi verið um það hjá Glitni að til væri verðmat sem væri ofar heldur en þarna er tilgreint?  V:  Það stendur þarna „ýmsar upplýsingar“ en það er áreiðanlega má komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið til einhverjar vísbendingar þar um það.

GJ:  Þá er nóg um þetta og þá er það síðasta atriðið sem ég ætlaði að spyrja vitnið um, er skjal sem að var lagt fram í þinghaldi sem ég held að hafi verið í janúar sl. sem er ákvörðun ríkissaksóknara um það að Rósant Már Torfason sæti ekki ákæru, þekktir þú þá ákvörðun?  V:  Já.

GJ:  6.589 þetta er ákvörðunin, það er búið að fella út væntanlega vegna trúnaðar, stílað á sérstakan saksóknara og sagt þarna er, fyrsta spurningin er sem sagt vissir þú það að þann 7. janúar 2011 þá hafi ríkissaksóknara ákveðið samkvæmt ósk embættis sérstaks saksóknara að Rósant Már Torfason sem hefur gefið vitni í þessu máli og gaf skýrslu sem vitni nei með réttarstöðu sakbornings, fyrirgefðu, hjá sérstökum saksóknara, að hann skyldi ekki ákærður í málinu þótt upplýsingar frá honum sjálfum kynnu að leiða líkur eða þó upplýsingar sem lágu fyrir kynnu að leiða líkur að broti hans sjálfs. Þekktir þú þessa ákvörðun?  V:  Já.

GJ:  Var þessi ákvörðun gerð að skjali í málinu?  V:  Nei, ekki á rannsóknarstigi.

GJ:  Hver tekur ákvörðun um að ákvörðun embættis ríkissaksóknara sem varðar beinlínis þetta mál, málsnúmerið er tilgreint í ákvörðuninni, verði ekki skjal í málinu?  V:  Ja það er lögreglustjórinn.

GJ:  Það er lögreglustjórinn og lögreglustjórinn, er það sérstakur saksóknari?  V:  Já.

GJ:  Nú er það samkvæmt 37. grein sakamálalaganna þannig að verjandi á rétt á því að fá strax afrit af öllum máls og svo er reyndar heimild til þess að það geti frestast við ákveðnar aðstæður um tiltölulega skamman tíma. Verjendur fengu vitneskju um þessa sérstöku stöðu Rósants í þinghaldi hér fyrir dómi í janúar á þessu ári og þá var liðið á þriðja ár frá því að ákvörðunin hafði verið tekin. Veist þú hver tók þá ákvörðun að þessu yrði haldið frá verjendum allan þennan tíma?  V:  Ákvarðanatakan er sú sama, það er sami ákvörðunartaki.

GJ:  Þá eru ekki fleiri spurningar varðandi það. Voru rannsakendur í þessu máli að einhverju leyti sama fólk og annaðist rannsóknina í Baugsmálinu sem var til umfjöllunar hér fyrir héraðsdómi og hjá lögreglu frá 2002 og fram til 2011 eða 2012?  V:  Já ég sjálfur og Sveinn Ingiberg, við komum að stjórnun rannsóknarinnar.

ÓP:  Það er Óttar Pálsson sem spyr, sæll vertu Grímur.  V:  Sæll.

ÓP:  Mig langar aðeins til þess að víkja örfáum spurningum aftur að því sem verjandi Gestur Jónsson vísaði hér til áðan sem Damans verðmatsins. Ég sé enga ástæðu til þess að varpa því hér fram svona til þess að flýta fyrir, ég bið þig um að leiðrétta mig ef ég fer rangt með framburð þinn hér áðan. Ég skildi þig þannig að það sem að hefur verið kallað Damas sniðmát að fjárfestingar sniðmát og áreiðanleikakönnun, fjárhagsleg og lögfræðileg sem að tengdist fyrirhuguðum viðskiptum með bréf í Aurum á sínum tíma hafi verið gögn sem þið notuðust við til undirbúnings við ferð sem þið fóruð til Dubai og yfirheyrðuð ákveðna einstaklinga þar. Ég skildi þig jafnframt þannig að þið hafið metið það svo að þessi gögn hefðu á endanum ekki verið talin hafa sönnunargildi í málinu og jafnframt að teknu tilliti til þess að það gæti verið dýrt að þýða þau að þá hafið þið ákveðið að gera þau ekki að rannsóknargögnum málsins.   V:  Það má kannski segja að það sé einn þátturinn.

ÓP:  Einn þátturinn?  V:  Já.

ÓP:  Voru aðrir þættir sem að skiptu máli?  V:  Þessir þættir um það að það kunni að vera dýrt að gera þetta að gögnum málsins auk þess sem þetta hefði aukið gagnamagn töluvert mikið, þetta var töluvert mikið af gögnum og það væru ekki í þessu upplýsingar sem bættu við. Á þessum tíma er það það sem liggur fyrir um ákvörðunina.

ÓP:  Þrátt fyrir það að þið hafið talið eða notast við þessi gögn til undirbúnings á þessari ferð?  V:  Já við sem sagt fengum gögnin send og það er kannski rétt að ég leiðrétti það aðeins, ég man ekki hversu mikið við notuðum en við fengum gögnin send áður en við fórum og þau voru í okkar, við vorum með þau áður en við fórum. Ég man bara ekki hversu mikið við notuðum þetta til undirbúningsins.

ÓP:  Nú er það svo að embætti sérstaks saksóknara hefur gert greinarmun á því sem kallað er annarsvegar rannsóknargögn máls og hinsvegar gögn sem eru gerð að dómskjölum í máli. Þingmálið er íslenska og dómskjöl ber almennt að þýða yfir á íslensku, frá því eru þröngar undantekningar en það er engin krafa að lögum um það að rannsóknargögn séu þýdd. Það hefur ekkert komið til skoðunar í því samhengi að gera þessi skjöl að rannsóknargögnum án þess að þau yrðu gerð að dómskjölum?  V:  Sjálfsagt hefur þetta verið eitthvað til umræðu en niðurstaðan er þessi eins og ég hef lýst en þá er þetta einn þátturinn en hann hafði ekki nein úrslitaáhrif, ekki þessi þýðing.

ÓP:  Þýðingarkostnaður?  V:  Nei.

ÓP:  Vissi saksóknarinn í málinu um þessi gögn þegar ákæra í málinu var gefin út?  V:  Ég veit það ekki. Ég bara veit það ekki.

ÓP:  Veist þú hvað réði því að þessi gögn voru síðan lögð fram í dómsmálinu?  V:  Já ég held að það hafi komið til vegna þess að þau komu til álita í einkamáli sem er rekið um sama mál ef svo má segja.

ÓP:  Hvernig breyttist eðli þessara gagna undir rekstri málsins sem gerði það að verkum að gögn sem áður voru talin hafa svo lítið sönnunarvægi að þau voru ekki einu sinni gerð að rannsóknargögnum og voru allt í einu talin hafa svo mikið sönnunarvægi að þau voru ekki bara gerð að rannsóknargögnum heldur einnig gerð að sönnunargögnum í dómsmálinu sjálfu, að málskjölum í dómsmálinu.  V:  Það kemur til að það er ákvörðun ákærandans í málinu að gera þetta að dómsgögnum og hann tekur þá ákvörðun þrátt fyrir það að áður hafi verið tekin ákvörðun um að þetta yrði ekki á meðal rannsóknargagna.

ÓP:  Þú veist ekkert hvað það var sem réði því eða breytti eðli þessara gagna í tengslum við þetta tiltekna mál?  V:  Nei.

ÓP: Takk.

GJ:  Það er ein spurning enn sem mér láðist að klára, ef ég má?

D:  Já.

GJ:  Það er Gestur Jónsson aftur, það er varðandi ákvörðunina um Rósant, þessi ákvörðun virðist vera byggð á því að Rósant hafi lagt eitthvað til rannsóknarinnar sem skipti máli, spurningin er sú hvort að einhver gögn sem liggja frammi í málinu stafa frá Rósant á þeim forsendum sem þessi ákvörðun er byggð á, það er að segja eru meðal gagna málsins þau gögn sem nægðu Rósant til þess að hann losnaði við ákæru?  V:  Í framhaldi af þessari ákvörðun að þá er tekin skýrsla af honum og ..

GJ:  Það er mjög langt á milli, það er tekin skýrsla af honum haustið 2010 og síðan er ákvörðun í janúar 2011 og næsta skýrsla af Rósant er tekin í nóvember 2011, ég vona að ég fari rétt með.  V:  Já ég rengi það ekki neitt, það er tekin skýrsla af honum í framhaldi.

GJ:  10 mánuðum síðar.  V:  Já.

GJ:  En spurningin er sú, við vitum ekki til þess og við fengum aldrei að vita að það kynnu að vera gögn í þessu máli sem stöfuðu frá vitni sem hefði samið sig undan saksókn og spurningin er þessi, veist þú til þess að slík gögn séu inni í málinu?  V:  Þú meinar bara svona skjalleg gögn?

GJ:  Já.  V:  Nei en ég held að það séu frekar gögn sem hafa komið eða sem sagt upplýsingar í yfirheyrslu.

GJ:  Sem sagt þú átt þá bara við endurrit af framburðum?  V:  Já.

GJ:  Engin skjalleg gögn?  V:  Nei.

GJ:  Takk.

S:  Það eru örfáar spurningar, ég ætla að fara á blaðsíðu 6.583 og þá erum við komin aðeins aftar í umrætt sniðmót og ef við förum aðeins neðar, þarna eru til dæmis listaðir upp svokallaðir áhættuþættir og síðan tekjur, hagnaður alls og rekstrarhagnaður. Þetta er sama fjárfestingasniðmat og við vorum að skoða áðan. Bendir þetta til þess að þetta skjal sé fullklárað?  V:  Ég þori bara ekki að taka neina afstöðu til þess.

S:  Ef við förum á næstu blaðsíðu, þarna er aftur rekstrarhagnaður nettó, framlegð, eignir alls, viðskiptavild, birgðir, skuldarar, skuldir alls og engar tölur og síðan þessi dálkur, bendir þessi frágangur til þess að þetta skjal sé að fullu unnið?  V:  Ja það blasir við að það vanti upplýsingar í það en það blasir við að það vantar tölurnar við þessi.

S:  Kann það að skýra mat rannsakanda á því hvort að skjal skuli gert að gögnum máls, hvort það er fullunnið eða bara í drögum?  V:  Já það kann að skýra.

S:  Það kann að gera það. Er það algengt að aflað sé gagna í þágu rannsóknar máls án þess að það sé gert að gögnum máls?  V:  Já, já.

S:  Er það háð mati rannsakanda á efni og innihaldi þeirra skjala?  V:  Hvort þau eru gerð að gögnum máls?

S:  Já.  V:  Já.

S:  Er það algengt að ákærandi ákveði að leggja fram frekari skjöl fyrir dómi en þau sem upphaflega eru lögð fyrir?  V:  Já það tel ég vera.

S:  Takk fyrir.

GJ:  Þú svaraði hér spurningu um það hvort að ákvörðunin um það hvort að gagn yrði gert að skjali í máli væri háð mati rannsakandans og þú svaraði því játandi og ég get tekið það fram að ég hefði svarað því sama en spurningin er kannski þessi, er það mat frjálst?  V:  …

GJ:  Skiptir máli hvort að það getur haft þýðingu fyrir annað hvort hugsanlega sakfellingu eða mögulega sýknu að skjalið sé lagt fram?  V:  Já klárlega.

GJ:  Takk.

D:  …um verðmæti Aurum og það er himin og haf þar á milli eins og þú þekkir og búið er að fara yfir hérna núna, kom aldrei til greina þarna í grúppunni sem rannsakaði málið að fá dómkvadda matsmenn til þess að meta verðmæti félagsins á þessum tíma sem máli skiptir?  V:  Ég held að sú umræða hafa farið fram jú en það hafi legið fyrir að það væri að fara fram slíkt mat í einkamáli og verið horft til þess að það væri hægt að gera það af gögnum máls ef það lægi fyrir.

D:  Og ástæðan fyrir því að það fór ekki fram mat í þessu sakamáli, var sú að það var verið að vinna mat í einkamáli?  V:  Já.

D:  Einkamálið hefur ekki verið komið …  V:  Ég held að það hafi alveg komið til álita já.

D:  En það var ekki gert.  En rannsakendur hafa náttúrulega haft einhverja hugmynd um það hvað gæti verið normal verð á félaginu á þessum tíma, hvert var það og hvernig átti að meta það?  V:  Nei rannsakendur voru ekki með mat á því hvað það hefði átt að vera. Það liggur náttúrulega fyrir að það er ákveðin ákveðin lánveiting inni í Glitni byggð á ákveðnum gögnum og fyrst og fremst eru það gögn sem eru í þessu skjali head of terms og þar koma fram ákveðnar tölur. Það voru þær sem voru til rannsóknar fyrst og fremst.

D:  En það að ekki voru dómkvaddir matsmenn, ástæðan er sú að þið vissuð þá af einkamálinu og að þar yrði farið fram á yfirmat væntanlega?  V:  Nei ég er að tala um bara fyrsta matið.

D:  Mat Gylfa?  V:  Já.

ÓP:  Það er Óttar Pálsson sem spyr, naut lögregla við rannsókn málsins einhverrar sérfræðiráðgjafar til þess að greina þá áhættu sem fólst í þeirri lánveitingu sem deilt er um í málinu?  V:  Utanaðkomandi sérþekking?

            ÓP:  Utanaðkomandi.  V:  Nei.

ÓP:  Hver innan embættisins er það sem hefur þá sérþekkingu sem þarf til þess að greina áhættuna í rannsóknarhópnum?  V:  Rannsóknarhópurinn var samansettur af lögreglumönnum og lögfræðingum og verkfræðingum. Ég hef sjálfur menntun í viðskiptafræði, þannig að ég myndi segja að það hafi verið þeir sem höfðu sérfræðiþekkingu og menntun á því sviði sem hafa komið að því.

ÓP: En þið hafið ekki séð ástæðu til þess að leita utanaðkomandi ráðgjafar í sambandi við greiningu á áhættu? V: Nei.

Vitnið víkur frá kl. 15.51.