This post is also available in: English (English)

Jón Ásgeir Jóhannesson vann í dag mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem dæmt var að brotið hefði verið gegn mannréttindum hans með því að refsa honum tvisvar vegna sama atviksins. Jón Ásgeir veltir fyrir sér hver ætlar að axla ábyrgð á síendurteknum mannréttindabrotum íslenskra yfirvalda.

„Ég hef ekki kynnt mér efni dómsins til hlítar en þetta eru virkilega góðar fréttir. Niðurstaðan kemur mér ekki á óvart enda er hún í samræmi við fyrri dóma mannréttindadómstólsins sem kveðnir hafa verið upp allt frá árinu 2009. Mér finnst umhugsunarefni að hér á landi var engu breytt í refsimeðferð skattamála þótt mál mitt hefði verið tekið til efnismeðferðar hjá mannréttindadómstólnum og fyrir lægju fordæmi um að íslenska kerfið stæðist ekki. Ríkin í kringum okkur brugðust allt öðru vísi við og reyndi að aðlaga sína framkvæmd niðurstöðum mannréttindadómstólsins. Ég hef barist gegn hinum ýmsu öngum stjórnvalda í réttarsölum landsins undanfarin fimmtán ár og haft það oftar en ekki á tilfinningunni að pottur væri brotin í íslensku réttarkerfi. Niðurstaðan staðfestir þennan grun minn og staðfestir líka sem betur fer að íslenska réttarkerfið er ekki, eitt réttarkerfa í Evrópu, undanþegið Mannréttindasáttamála Evrópu.

Sjá einnig: https://www.jonasgeirjohannesson.is/jon-asgeir-vinnur-mal-gegn-islenska-rikinu/

Ég velti því fyrir mér hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við þessum dómi. Ætlar einhver að axla ábyrgð á því að mannréttindi einstaklinga á Íslandi hafa verið fótum troðin í réttarsölum undanfarin ár? Munu fyrrverandi eða núverandi ráðherrar og stjórnmálamenn, héraðsdómarar eða hæstaréttardómarar, fyrr- og núverandi, sæta ábyrgð? Ef enginn ber ábyrgð á rangindunum er ég hræddur um að ekkert breytist. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenska ríkið er dæmt fyrir brot á mannréttindum fólks að mati Mannréttindadómsstólsins. Og ef enginn axlar ábyrgð þá verður þetta ekki í síðasta skiptið.

Nú tekur við hjá mér að skoða dóminn frá öllum hliðum áður en næstu skref í málinu verða ákveðin.“

Fréttatilkynning MDE

Dómur MDE