Jón Ásgeir Jóhannesson var fórnarlamb mannréttindabrots af hálfu Hæstaréttar árið 2012 samkvæmt umsögn Ríkissaksóknara til endurupptökunefndar. Umsögnin staðfestir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í maí á síðasta ári.

Brotið á Jóni Ásgeiri
Forsaga málsins er sú að þann 18. maí 2017 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm þess efnis að íslenska ríkið hefði brotið á mannréttindum Jóns Ásgeirs er hann var sakfelldur af Hæstarétti árið 2012. Í kjölfarið sendi Jón Ásgeir erindi til Endurupptökunefndar með beiðni um að mál hans frá 2012 yrði endurupptekið. Eftir mikinn vandræðagang og seinagang við skipun nefndarinnar virðist endurupptökunefnd vera byrjuð að vinna í málinu.

Sjá einnig: http://www.ruv.is/frett/mannrettindadomstoll-daemdi-joni-asgeiri-i-hag

Embætti Ríkissaksóknara hefur skilað tveimur umsögnum til endurupptökunefndar. Í þeirri fyrri kom fram að embættið teldi sterk rök hníga í þá átt að heimila bæri endurupptöku dóms Hæstaréttar. Í seinni umsögn Ríkissaksóknara til nefndarinnar kom fram það álit embættisins að dómur Hæstaréttar sem fallið hafi eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í sambærilegu máli gefi ekki annað til kynna en að Hæstiréttur telji að brotið hafi verið gegn rétti Jóns Ásgeirs árið 2012.

Það vekur sérstaka athygli að fjórir af fimm dómurum sem dæmdu í máli Jóns Ásgeirs árið 2012, voru á meðal þeirra sjö dómara sem staðfestu túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu í samkynja máli sem dæmt var í Hæstarétti í september á síðasta ári.

Umsögn Ríkissaksóknara til endurupptökunefndar