This post is also available in: English (English)

Jón Ásgeir Jóhannesson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1968, sonur hjónanna Jóhannesar Jónssonar og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur, sem bæði eru látin. Hugur Jóns Ásgeir hneigðist snemma til viðskipta og árið 1989, eftir nám í Verzlunarskólanum, stofnaði hann Bónus ásamt föður sínum Jóhannesi. Feðgarnir byrjuðu smátt í 400 fermetra húsnæði við Skútuvog en á nokkrum árum varð Bónus næststærsti smásöluverslun landsins og gjörbreytti matarinnkaupum Íslendinga með lægra vöruverði en áður hafði þekkst.

Árið 1992 keypti Hagkaup, helsti samkeppnisaðili Bónus, helmingshlut í fyrirtækinu og til varð Baugur Group sem átti eftir að setja mark sitt á íslenskan smásölumarkað og viðskiptalíf á næstu árum. Jón Ásgeir var forstjóri félagsins sem varð leiðandi á íslenskum smásölumarkaði. Undir forystu Jóns Ásgeirs sótti Baugur Group fram á erlendri grund og þegar best lét átti félagið leiðandi hlut í leikfangarisanum Hamleys, House of Fraser, Debenhams sem og Karen Millen og fleiri fatamerki í Bretlandi og vöruhúsin víðfrægu Magasin du Nord og Illum í Danmörku sem stóðu höllum fæti þegar Baugur Group kom að rekstrinum. Með mikilli vinnu náðist að snúa rekstrinum til betri vegar eftir 15 ára taprekstur. Stærsta verkefni Baugs á þessum tíma voru kaupin á Booker og Iceland Food í Bretlandi sem var án nokkurs vafa best heppnuðu kaup íslenskra viðskiptamanna í útlöndum.

Baugur Group fékk að kenna á hruninu og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta snemma árs 2009.

Jón Ásgeir hefur verið viðloðandi íslenska fjölmiðla í um 15 ár, allt frá því að hann eignaðist Fréttablaðið árið 2002. Einu og hálfu ári seinna, í nóvember 2004 keypti hann Norðurljós, sem samanstóð af Stöð 2 og tengdum sjónvarpsstöðvum og Bylgjunni og tengdum útvarpsstöðvum. Úr varð fjölmiðlarisinn 365 sem er í dag í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs, Ingibjargar Pálmadóttur.

Jón Ásgeir hefur undanfarin ár einbeitt sér að fjárfestingaverkefnum hérlendis sem og erlendis.