Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson unnu í dag mál sem þeir höfðuðu gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Dómurinn birtist á heimasíðu dómstólsins klukkan átta í morgun að íslenskum tíma. Mannréttindadómstóllinn kvað upp þann dóm að íslenska ríkið hefði brotið gegn mannréttindum Jóns Ásgeirs og Tryggva með því að refsa þeim tvisvar vegna sama atviks.

Í tengslum við rannsókn Baugsmálsins svokallaða rannsökuðu skattayfirvöld skattskil kærenda fyrir árin 1998 til 2002. Rannsóknin leiddi til hækkunar á álögðum sköttum kærenda. Ríkisskattstjóri og síðar yfirskattanefnd, lögðu, á grundvelli heimilda í lögum, 25% álag á skattana og greiddu kærendur álögð viðbótargjöld ásamt dráttarvöxtum á árunum 2004 til 2006. Kærendur héldu því fram að með álagningu 25% álagsins hafi þeim verið gerð refsing vegna þessara atvika.

Sjá einnig: https://www.jonasgeirjohannesson.is/jon-asgeir-hver-aetlar-ad-axla-abyrgd/

Þann 18. desember 2008 gaf Ríkislögreglustjóri út ákæru á hendur Jóni Ásgeiri og Tryggva þar sem þeir voru ákærðir fyrir sömu atvik og skattayfirvöld höfðu þegar fjallað um. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði stærstum hluta ákærunnar frá dómi í júní 2010 með vísan til undangengis úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu um bann við tvöfaldri refsimeðferð vegna sama atviks. Ákæruvaldið kærði frávísunina til Hæstaréttar sem felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi í september 2010 og lagði fyrir dóminn að fjalla efnislega um ákæruna. Var sagt í forsendum dóms Hæstaréttar að óvissa væri um gildissvið og inntak 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem felur í sér bann við tvöfaldri refsimeðferð vegna sama atviks og að ekki væri samræmi í dómum Mannréttindadómstólsins um efni reglunnar.

Að gengnum dómi Hæstaréttar fjallaði héraðsdómur um ákæruna og endanlegur dómur féll 7. febrúar 2013 þar sem ákærðu voru dæmdir til skilorðsbundins fangelsis og til greiðslu sekta.

Með dómi Mannréttindadómstólsins nú virðist þessari óvissu um gildissvið og inntak greinarinnar um bann við tvöfaldri refsingu hafa verið eytt og ljóst að hann hefur víðtækar afleiðingar hér á landi. Nú eru fyrir dómstólum tugir skattamála þar sem hinum ákærðu hefur þegar verið refsað af stjórnvöldum. Búast má við miklum fjölda krafna um endurupptöku fjölmargra dómsmála frá undanförnum árum þar sem refsað hefur verið tvisvar vegna sama atviks. Í slíkum málum má reikna með því að íslenska ríkið fái á sig kröfur um endurgreiðslu sekta auk skaðabótakrafna.

Fréttatilkynning MDE

Dómur MDE